Gestrisnir Hvergerðingar

Hamar bauð HK í heimsókn á Grýluvöll í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Gestrisni Hvergerðinga var með eindæmum góð því gestirnir komust upp með að skora fjögur mörk og sigra, 1-4.

HK hafði yfirhöndina allan fyrri hálfleik þó að Hamar hafi átt nokkur ákjósanleg færi. Björn M. Aðalsteinsson, markvörður Hamars, varði vel frá HK-ingum á 6. mínútu og mínútu síðar komust Hamarsmenn í gott færi. Fyrirgjöf hrökk af varnarmanni yfir á Abdoulaye Ndiaye sem var aleinn á fjærstöng en hitti boltann illa, boltinn barst út í teig þar sem Arnþór Kristinsson lét vaða að marki en skaut rétt framhjá.

Á 10. mínútu áttu gestirnir stangarskot eftir hornspyrnu en á 17. mínútu brotnaði ísinn þegar HK sendi háan bolta innfyrir þar sem Farid Zato-Arouna náði að leggja boltann fyrir sig og lauma honum undir Björn. Tveimur mínútum síðar skaut Aron Már Smárason í varnarmann og rétt framhjá eftir klafs í vítateig HK.

Beitir Ólafsson, markvörður HK, varði hörkuskot frá Ingþóri Björgvinssyni á 26. mínútu eftir hornspyrnu. HK brunaði í skyndisókn þar sem Guðmundur Atli Steinþórsson stakk Hamarsliðið af og skoraði.

Fimm mínútum síðar átti Hamar virkilega góða sókn sem lauk með því að Sene Abdalha flikkaði boltanum innfyrir á landa sinn Ndiaye en hann var alltof lengi að athafna sig og varnarmaður HK komst fyrir skotið. Aron Már gerði sig svo líklegan þegar markvörður HK missti boltann yfir sig á 34. mínútu en aftur setti varnarmaður fót í boltann á síðustu stundu og spyrnti frá.

Á 40. mínútu fór Ágúst Örlaugur Magnússon, fyrirliði Hamars, meiddur af velli og riðlaðist varnarleikur liðsins greinilega við það því Atli Valsson og Guðmundur Atli bættu við tveimur mörkum fyrir HK á síðustu tveimur mínútum fyrri hálfleiks og staðan var 0-4 í hálfleik.

Eftir fjörugan fyrri hálfleik girtu Hamarsmenn sig í brók í þeim síðari, vörðust betur og áttu ágæta spilkafla úti á vellinum. Ndiaye var stöðugt ógnandi úti á vinstri vængnum en vörn gestanna hélt vel og hraðskreiðir sóknarmenn þeirra ollu usla í Hamarsvörninni.

Á 52. mínútu varði Björn vel í marki Hamars, skot frá Guðmundi Atla, eftir að vörn Hvergerðinga hafði opnast illa. Guðmundur náði frákastinu og skaut í hliðarnetið af stuttu færi. Nokkrum mínútum síðar átti HK stangarskot eftir skyndisókn en á 64. mínútu átti Ndiaye góðan sprett fyrir Hamar sem lauk sömuleiðis með stangarskoti. Skömmu síðar var Aron Már aðgangsharður í vítateig HK en náði ekki að skora.

Hamar minnkaði muninn í 1-4 á 70. mínútu og aftur var það Ndiaye sem sýndi lipur tilþrif, lék á varnarmann HK, og renndi boltanum inn í teiginn þar sem Aron Már afgreiddi hann í netið af stuttu færi.

Síðasta korterið voru gestirnir ákveðnari og áttu þrjú ágætis færi en í tveimur þeirra varði Björn Aðalsteinn með tilþrifum.

Þrátt fyrir tapið í dag er líklegast að Hamar haldi sæti sínu í deildinni en þegar tvær umferðir eru eftir er liðið með fimm stiga forskot á Fjarðabyggð sem er í fallsæti.

Fyrri greinSegir ofríki stofnana í Reykjavík eyðileggja sveitarstjórnarmál
Næsta greinKFR klóraði í bakkann í lokin