Selfoss tapaði naumlega fyrir toppliði HK í Inkassodeild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust á Selfossvelli. Lokatölur urðu 1-2.
„Ég er mjög ánægður með hvernig liðið barðist í dag, við skoruðum mark á 90. mínútu og héldum að við værum búnir að jafna. Það var dæmt af en við getum ekki breytt neinu,“ sagði Dean Martin, nýr þjálfari Selfyssinga, í samtali við fotbolti.net eftir leik. „Ég er ánægður með liðið, ég er bara búinn að vera hér í tvo daga en ég er bara bjartsýnn á þetta.“
Gestirnir komust yfir með ódýru aukaspyrnumarki á 18. mínútu en tveimur mínútum síðar var Hrvoje Tokic búinn að jafna metin fyrir Selfoss.
Staðan var 1-1 í hálfleik en gestirnir voru sprækir í upphafi síðari hálfleiks og komust aftur yfir á 50. mínútu eftir snarpa sókn. Þegar leið á leikinn sóttu Selfyssingar fast að marki HK en inn vildi boltinn ekki, fyrr en á lokamínútunni að Ingi Rafn Ingibergsson skoraði. Aðstoðardómarinn dæmdi markið af vegna rangstöðu en augljóst var að um rangan dóm var að ræða.
Selfyssingar eru áfram í 11. sæti deildarinnar með 11 stig og eiga næst leik á útivelli gegn Magna á Grenivík, en Magni situr í botnsætinu með 9 stig.