Gilbert með geggjaðar tölur

Ahmad Gilbert var fremstur í flokki hjá Hrunamönnum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ahmad Gilbert var allt í öllu þegar Hrunamenn unnu nauman sigur á botnliði Þórs Akureyri í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Á sama tíma tapaði Selfoss gegn toppliði Álftaness.

Leikur Þórs Ak og Hrunamanna var óþarflega spennandi. Jafnræði var með liðunum framan af en Hrunamenn leiddu í hálfleik, 40-52. Það tók Þórsara aðeins rúmar fjórar mínútur að komast yfir í seinni hálfleiknum og spennan hélst í leiknum allt til loka. Hrunamenn náðu sex stiga forskoti þegar tvær og hálf mínúta var eftir og þeir héngu á því til leiksloka, lokatölur 85-89. Ahmad Gilbert var með 49 í framlagseinkunn, skoraði 30 stig, tók 19 fráköst, sendi 9 stoðsendingar og stal 6 boltum.

Selfyssingar fengu öllu erfiðara verkefni í Forsetahöllinni á Álftanesi. Heimamenn náðu góðu forskoti í 1. leikhluta og staðan í hálfleik var 54-42. Munurinn jókst talsvert í 3. leikhluta en jafnræði var með liðunum í þeim fjórða og lokatölur urðu 98-77. Kennedy Clement var stigahæstur Selfyssinga með 33 stig og Arnaldur Grímsson var sömuleiðis öflugur með 20 stig.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss og Hrunamenn eru í 6.-7. sæti deildarinnar með 18 stig en Selfyssingar hafa betur í innbyrðis viðureignum.

Þór Ak.-Hrunamenn 85-89 (24-25, 16-27, 26-20, 19-17)
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 30/19 fráköst/9 stoðsendingar/6 stolnir, Samuel Burt 20/10 fráköst, Dagur Úlfarsson 14, Óðinn Freyr Árnason 11/5 stoðsendingar, Haukur Hreinsson 6/4 fráköst, Þorkell Jónsson 4, Patrik Gústafsson 2, Hringur Karlsson 2.

Álftanes-Selfoss 98-77 (32-21, 22-21, 23-12, 21-23)
Tölfræði Selfoss: Kennedy Clement 33/8 fráköst, Arnaldur Grímsson 20/5 fráköst, Ísar Freyr Jónasson 8/5 fráköst, Gerald Robinson 7/7 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson 4, Sigmar Jóhann Bjarnason 3, Ísak Júlíus Perdue 2/5 fráköst/9 stoðsendingar.

Fyrri greinBaka 15.000 bollur fyrir Sunnlendinga
Næsta greinFjöldi óhappa í Víkinni á sunnudag