85 ára afmælishátíð Hestamannafélagsins Sleipnis var haldin á dögunum á Hótel Selfossi. Um 300 gestir voru á hátíðinni þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir afrek á árinu.
Ungmennabikar Sleipnis hlaut Brynja Amble Gísladóttir hún varð í þriðja sæti í Vetrarmótaröð Sleipnis, vann firmakeppni Sleipnis, varð önnur í fjórgangi á opna WR á Selfossi. Einnig vann hún báðar úrtökurnar í ungmennaflokki fyrir Landsmót og ungmennaflokk Sleipnis. Á landsmótinu varð hún í fimmta sæti í ungmennaflokki.
Ræktunarbikar Sleipnis fékk Ari Thorarenssen fyrir Krókus frá Dalbæ en hann hlaut einnig Sleipnisskjöldinn. Þá hlaut Loki frá Selfossi viðurkenningu fyrir sigur í B-flokki gæðinga með einkunnina 9,39 á Landsmóti Hestamanna á Hellu.
Íþróttaknapi Sleipnis er Haukur Baldvinsson. Hann varð Íslandsmeistari í gæðingaskeiði á Fal frá Þingeyrum með 8,17 í einkunn og er það reyndar þriðja árið í röð sem hann hlýtur titilinn.
Knapi ársins er Olil Amble en hún átti frábært keppnisár sem hófst með því að hún hlaut þriðja sæti í einstaklings- og liðakeppni Meistaradeildarinnar 2014. Olil var valin fagmannlegasti knapi deildarinnar og sigraði meðal annars Gæðingafimina með hæstu einkunn sem gefin hefur verið frá upphafi. Einnig sýndi hún þrettán kynbótasýningar á árinu með glæsilegum árangri.
Að endingu voru Olil og Bergur heiðruð sérstaklega fyrir þann ótrúlega árangur sem þau hafa náð á sviði ræktunar, þar með talið að vera valin ræktunarbú ársins auk fjölda annara tilnefninga til þeirra verðlauna.
Þá bættust fjórir nýir heiðursfélagar í hóp Sleipnismanna, þeir Einar Hermundsson, Snorri Ólafsson, Gunnar Friðþjófsson og Einar Öder Magnússon. Aðrir heiðursfélagar eru Svala Steingrímsdóttir, Gunnar Gunnarsson, Guðríður Valgeirsdóttir og Skúli Steinsson og voru þau heiðruð með nýju barmmerki.