Glæsilegur útisigur á Íslandsmeisturunum

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu gerði sér lítið fyrir og skellti Íslandsmeisturum Þórs/KA á útivelli þegar liðin mættust í Pepsi-deildinni í kvöld. Lokatölur voru 1-3.

Selfyssingar komust yfir á 25. mínútu leiksins þegar Andrea Ýr Gústavsdóttir kom boltanum í netið og fimm mínútum síðar kom Guðmunda Brynja Óladóttir Selfoss í 0-2 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Selfossliðið var ekki hætt því strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks skoraði Tiana Brockway þriðja mark Selfoss og gestirnir komnir í mjög álitlega stöðu.

Þór/KA minnkaði muninn á 71. mínútu en komust ekki nær þrátt fyrir að ljúka leik manni fleiri því Brockway fékk sitt annað gula spjald og það rauða í kjölfarið á 84. mínútu. Hún verður því í leikbanni þegar Selfoss fær Val í heimsókn í bikarkeppninni á þriðjudaginn.

Eftir sigurinn er Selfoss í 4. sæti deildarinnar með 10 stig.

Fyrri greinNýtt utanvegahlaup í Mýrdalnum
Næsta greinÞriðja tap Árborgar í röð