Glæsilegur völlur tekinn í notkun

Vormót HSK í frjálsum íþróttum var haldið í gær en mótið er fyrsta mótið á nýja frjálsíþróttavellinum á Selfossi.

Ólafur Guðmundsson, Umf. Selfoss, hljóp einn 110 m grindahlaup karla sem var fyrsta grein mótsins og Ólafur því fyrsti keppandinn á nýja vellinum. Hann hljóp sprettinn á 17,33 sek í miklum mótvindi.

Haraldur Einarsson, Umf. Vöku, sigraði í 100 m hlaupi karla á 11,90 sek og hann sigraði einnig í 400 m hlaupi á 53,41 sek.

Eva Lind Elíasdóttir, Umf. Þór, sigraði í 100 m hlaupi kvenna á 13,77 sek og kúluvarpi, þar sem hún kastaði 10,63 m.

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í hástökki kvenna, stökk 1,60 m og hún hljóp ein til sigurs í 400 m grindahlaupi á 1:10,79.

Agnes Erlingsdóttir, Umf. Laugdæla, sigraði í 400 m hlaupi kvenna á 1:06,16 mín og Bjarni Már Ólafsson, Umf. Vöku, sigraði í þrístökki, stökk 13,33 m.

Hreinn Heiðar Jóhannsson, Umf. Laugdæla, sigraði í hástökki karla með 1,95 m og bætti sinn persónulega árangur um 1 cm frá því á Unglingalandsmótinu í fyrra.

41 keppandi mætti til leiks frá 11 félögum, bæði af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Keppt var í tíu greinum á mótinu í karla og kvennaflokki alls tuttugu greinum.

Eyrún Halla Haraldsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í kringlukasti, kastaði 28,82 m og Dagur Fannar Magnússon, Umf. Selfoss, kastaði 46,55 m í sleggjukasti og sigraði. Dagur bætti sig um tæpa 5 metra og setti héraðsmet í flokki 19-20 ára unglinga. Gamla metið átti Bjarki Viðarsson, Umf. Dagsbrún.

Þá sigraði gamla kempan Vigdís Guðjónsdóttir, Umf. Skeiðamanna, örugglega í spjótkasti kvenna með kast upp á 42,83 m.

Nýi völlurinn er glæsilegur og vallaraðstæður mjög góðar þó að veðrið hafi gert keppendum erfitt fyrir en stífur vindur var allan tímann sem mótið stóð yfir. Þrátt fyrir það voru sett vallarmet í öllum greinum, þó að þau verði líklega flest öll bætt fljótlega í sumar. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin og voru það birkiplöntur frá Suðurlandsskógum.

Fyrri greinMarkvisst farið yfir ástandið
Næsta greinÞjófarnir brutu upp söfnunarbauka