Jólamót HSK í júdó var haldið þrjá föstudaga í röð í desember hjá júdódeild Selfoss í gamla Sandvíkursalnum. Mótið markar lok á haustönn hjá júdódeildinni.
Þann 6. desember keppti yngsti hópurinn, 6-7 ára börn. Þar voru margir keppendur að taka þátt á sínu fyrsta móti og stóðu sig vel. Keppendur voru 19 talsins, strákar og stelpur og voru þeir vel studdir af foreldrum, ömmum, öfum og systkinum sem mættu til að fylgjast með. Strákar í unglingaflokki fengu að spreyta sig í að dæma og aðstoða við mótið.
Átta til tíu ára krakkarnir kepptu þann 13. desember. Þar voru keppendur 22 talsins, strákar og stelpur. Þau hafa öll keppt áður og sáust glæsileg tilþrif og margar flottar glímur.
Síðasti hluti var haldinn 19. desember og þar kláraði 11-15 ára hópurinn svo önnina sína með jólamótinu. Þar voru keppendur 10 talsins, bæði strákar og stelpur. Í þessum flokki er blanda af krökkum sem hafa verið lengi og hafa mikla reynslu og einnig stelpur sem voru að keppa á sínu fyrsta móti og stóðu sig glæsilega.