Glæsileg uppskeruhátíð Sleipnis

(F.v.) Helgi Þór Guðjónsson, Guðmunda Ellen Sigurðardóttir, Védís Huld Sigurðardóttir, Þórdís Sigurðardóttir sem tók á móti verðlaunum fyrir hönd Soffíu Sveinsdóttur, Ari Björn Thorarensen sem tók á móti verðlaunum fyrir hönd Sigursteins Sumarliðasonar og Berglind Sveinsdóttir, formaður Sleipnis. Ljósmynd/Aðsend

Uppskeruhátíð Hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi var haldin í Þingborg við hátíðlega athöfn síðastliðið laugardagskvöld.

Fjöldi verðlauna voru veitt á uppskeruhátíðinni. Bestu tíma í skeipgreinum áttu Sigursteinn Sumarliðason á Krókusi frá Dalbæ í 250 m skeiði á tímanum 21,35 sek sem jafnframt var besti tími ársins. Sigursteinn og Krókus áttu einnig besta tímann í 100 m skeiði 7,33 sek og í 150 m skeiði var það Larissa Silja Werner á Hyl frá Kjarri á tímanum 14,97 sek.

Ræktunarbikar Sleipnis, sem kemur í hlut hæst dæmda kynbótahrossi ársins sem ræktað er af Sleipnisfélaga, hlaut Safír frá Laugardælum en ræktandi hans er Malin Linnea Birgitta Widar. Safír hlaut 8,81 í aðaleinkunn í flokki 5. vetra stóðhesta á Landsmóti hestamanna í Reykjavík.

Sérstakar viðurkenningar á uppskeruhátíðinni hlutu Sigursteinn Sumarliðason, Íslandsmeistari í 250 m skeiði á Krókusi frá Dalbæ, Guðmunda Ellen Sigurðardóttir, Íslandsmeistari í fjórgangi meistaraflokki á Flaumi frá Fákshólum og Védís Huld Sigurðardóttir, sem varð Norðurlandameistari í fimmgangi ungmenna á Búa frá Húsavík.

Félagar ársins hjá Sleipni eru Stefán Bjartur Stefánsson og Linda Rut Ragnarsdóttir, Klárhestaskjöldurinn kom í hlut Þrastar frá Kolsholti og Sleipnisskjöldinn hlaut Kolbeinn frá Hrafnsholti.

Þá voru knapar ársins verðlaunaðir og má sjá greinargerðir um þá hér fyrir neðan.

(F.v.) Ari Björn fyrir hönd Sigursteins Sumarliðasonar Íslandsmeistara í 250 m skeiði, Guðmunda Ellen Sigurðardóttir Íslandsmeistari í fjórgangi meistaraflokki og Védís Huld Sigurðardóttir Norðurlandameistari í fimmgangi ungmenna. Ljósmynd/Aðsend

Íþróttaknapi ársins
Guðmunda Ellen Sigurðardóttir varð í 2. sæti í einstaklingskeppninni í 1. deildinni í hestaíþróttum, sigraði fimmgang og 2. sæti í fjórgangi í Suðurlandsdeildinni, var í 1.-2. sæti í fjórgangi og í B-úrslitum í slaktaumatölti á Reykjavíkurmótinu, varð Íslandsmeistari í fjórgangi meistaraflokki og í A-úrslitum í slaktaumatölti á sama móti.

Gæðingaknapi ársins
Helgi Þór Guðjónsson sigraði glæsilega B-flokk á gæðingamóti Sleipnis og endaði í 2. sæti í B-flokki gæðinga á landsmóti hestamanna þar sem munurinn var einungis 0,02 á 1. og 2. sæti.

Knapi ársins í ungmennaflokki
Védís Huld Sigurðardóttir sigraði einstaklingskeppnina í meistaradeild ungmenna, sigraði fimmgang ungmenna á WR íþróttamóti Sleipnis, var í þrennum A-úrslitum á Rreykjavíkurmeistaramótinu, sigraði ungmennaflokk á gæðingamóti Sleipnis, varð í 2. sæti í B-flokki ungmenna á landsmóti hestamanna og varð Norðurlandameistari í fimmgangi ungmenna.

Knapi ársins í flokki áhugamanna
Soffía Sveinsdóttir varð í 2. sæti í tölti og slaktaumatölti í áhugamannadeildinni, varð í 6. sæti í tölti í Suðurlandsdeildinni, 2. sæti í tölti á WR íþróttamóti Sleipnis og 4. sæti í fjórgangi á sama móti, 3. sæti í tölti á Reykjavíkurmeistaramótinu og endaði í 4. sæti í töltinu á gæðingamótinu á Flúðum þar sem hún var eini áhugamaðurinn í úrslitunum.

Knapi ársins hjá Sleipni
Sigursteinn Sumarliðason en hann átti frábært ár. Sigursteinn varð Íslandsmeistari í 250 m skeiði með besta tíma ársins á Krókusi frá Dalbæ, hann hlaut bronsverðlaun í 100 m skeiði á sama móti á sama hesti. Hann hlaut silfur í 100 m skeiði á landsmóti hestamanna og silfur í 250 m skeiði á sama móti á Krókusi frá Dalbæ. Eftir árið er Sigursteinn og Krókus frá Dalbæ í 2. sæti í íslenska stöðulistanum bæði í 250 og 100 m skeiði, hann er annar á alþjóðlega stöðulista FEIF í 250 m skeiði og áttundi á alþjóðlega stöðulistanum í 100 m skeiði.

Verðlaunahafar ásamt Berglindi Sveinsdóttur, formanni Sleipnis. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinLeggst gegn efn­is­töku í sjó við Land­eyja­sand
Næsta greinSmábókasmiðja á Selfossi