Opnunarleikur Mjólkurbikars karla í knattspyrnu var í kvöld þegar Árborg heimsótti Elliða á Fylkisvöllinn í Árbæ.
Árborg leikur í 4. deildinni í sumar en Elliði í 3. deildinni en það er ekki spurt að því í bikarnum og gerðu Árborgarar sér lítið fyrir og slógu Elliða úr leik.
Aron Freyr Margeirsson skoraði eina mark leiksins á 35. mínútu, þegar hann fékk boltann vinstra megin við vítateig Elliða, lék inn á völlinn og smurði boltanum svo upp í skeytin.
Korteri fyrr hafði Elliði misst mann af velli með rautt spjald eftir að brotið var á Aroni þegar hann var að sleppa í gegn. Manni fleiri höfðu Árborgarar góð tök á leiknum og Þormar Elvarsson komst nálægt því að tvöfalda forskot Árborgar undir lok leiks.
Fleiri urðu mörkin ekki, Árborg fagnaði 0-1 sigri og mætir Kára eða Létti á Selfossvelli í 2. umferðinni.