Glæsimark Þorvarðar dugði ekki til sigurs

Magnús Helgi Sigurðsson reynir skot að marki Samherja. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg tapaði stigum í toppbaráttu A-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu í dag þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Samherja á Selfossvelli.

Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik en bæði lið fengu ágæt færi og meðal annars var bjargað á línu á báðum endum vallarins í fyrri hálfleik.

Á 61. mínútu kom Þorvarður Hjaltason Árborg yfir með glæsilegu marki af löngu færi og staðan var 1-0 allt þar til á lokamínútu leiksins að Samherjar skölluðu boltann í netið eftir aukaspyrnu.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við í uppbótartímanum og niðurstaðan því 1-1 jafntefli.

Árborg er í 2. sæti A-riðilsins með 20 stig en Samherjar eru í 4. sætinu með 15 stig.

Fyrri greinÖruggt fyrir austan og Selfoss aftur á toppinn
Næsta greinKvöldstund full af dulúð og harmi