Það gladdi stuðningsmenn Selfoss að sjá Einar Ottó Antonsson koma inná í leiknum gegn Stjörnunni í síðustu viku. Þetta var fyrsti mótsleikur Einars í rúma átta mánuði.
Selfyssingar mæta Keflavík á útivelli í Pepsi-deildinni í kvöld en Einar Ottó á ekki von á að fá að spreyta sig mikið í leiknum. „Það er náttúrulega alveg glimrandi gott að vera komin aftur á skrið. Ég á reyndar ekki von á að fá mikinn tíma í kvöld en stefni á 90 mínútur í bikarleiknum gegn ÍA á fimmtudaginn,“ sagði Einar Ottó í samtali við sunnlenska.is.
Einar braut bein í öxlinni á sér í leik gegn Leikni í fyrra og spilaði meiddur síðustu þrjár umferðirnar. „Ég vissi svosem ekkert hvað þetta var en þetta var eitthvað að trufla mig þannig að ég lét skoða þetta og í framhaldinu fór ég í aðgerð í febrúar. Þar var sagað upp úr viðbeininu og skrapað brjósk og fleira. Ég er orðinn 90% góður og þessi 10% sem vantar uppá er bara betri æfing og leikform,“ segir Einar. „Síðan er næsta verkefni að vinna sér sæti í liðinu og það er ekki hlaupið að því miðað við hvað menn eru búnir að vera að standa sig vel í sumar.“
Miðjumaðurinn öflugi mun líklega horfa á mestan hluta leiksins í kvöld af bekknum en þrátt fyrir það líst honum ágætlega á leikinn. „Það eru reyndar búin að vera veikindi í hópnum hjá okkur, menn eru búnir að vera með gubbupest og eitthvað slappir en ég held að það verði allir til staðar í kvöld. Keflavík er með frábæran mannskap og verjast vel en við verðum að vera þéttir fyrir aftast og það væru góð úrslit ef við myndum ná í stig þarna.“
Það vita það ekki allir en Einar Ottó var í herbúðum Keflavíkur sumarið 2003 en náði ekki að leika mótsleik með meistaraflokki. „Ég æfði þarna um veturinn og fram í maí þegar ég meiddist og fór í aðgerð. Ég spilaði bara nokkra leiki með 2. flokki og U23 ára liðinu og kannast aðeins við nokkra leikmenn þarna,“ segir Ottó en meðal liðsfélaga hans á þessum árum voru Haraldur Freyr Guðmundsson, Hörður Sveinsson, Guðjón Antoníusson, Hólmar Örn Rúnarsson og Ómar Jóhannsson sem allir leika með Keflavík í dag.
„Það verður skemmtilegt að mæta til Keflavíkur en skemmtilegast er auðvitað að Ingó og Alli grái eiga báðir afmæli í dag og eru samtals fimmtugir. Það er engin smá reynsla,“ sagði Einar Ottó að lokum.
Flautað verður til leiks á Njarðtaksvellinum í Njarðvík kl. 19:15.