Bændaglíma Suðurlands fór fram í sextánda sinn í félagsheimilinu Þingborg í Flóahreppi síðastliðinn laugardag. Glíman var liður í árlegri vorhátíð Flóamanna sem nefnast Fjör í Flóa og haldin var um helgina.
Til leiks mættu tvö lið glímukvenna úr HSK en bændur voru þær Marín Laufey Davíðsdóttir og Brynhildur Hrönn Sigurjónsdóttir. Bændurnir kusu sér lið úr hópnum en Marín vann hlutkesti og fékk að kjósa fyrr. Til leiks mættu níu stúlkur og voru því fimm í liði Marínar en fjórar í liði Brynhildar.
Yfirdómari og glímustjóri var Stefán Geirsson bóndi í Gerðum. Hann kynnti keppendur og skýrði fyrirkomulag glímunnar fyrir áhorfendum sem voru allmargir. Kristinn Guðnason bóndi á Þverlæk lýsti keppninni fyrir áhorfendum og kom víða við í lýsingum sínum. Ritari var Jón M. Ívarsson frá Vorsabæjarhóli.
Glíman gekk vel fyrir sig, glímt var snarplega og tekin falleg brögð. Bóndi sigurliðsins, Marín Laufey Davíðsdóttir veitti viðtöku Sigurðarbikarnum að glímu lokinni. Hann var gefinn árið 1987 af Ungmennafélagi Íslands í minningu Sigurðar Greipssonar glímukappa og skólastjóra í Haukadal.
Lið Marínar:
1. Marín L. Davíðsdóttir Samh.
2. Guðrún Inga Helgadóttir Vöku
3. Hanna Kristín Ólafsdóttir Baldri
4. Sigurlín Arnarsdóttir Garpi
5. Hildur Jónsdóttir Garpi
Lið Brynhildar:
1. Brynhildur H. Sigurjónsdóttir Bisk.
2. Sigríður Magnea Kjartansdóttir Bisk.
3. Annika Rut Arnarsdóttir Garpi
4. Dagný Rós Stefánsdóttir Garpi
Úrslit:
Lið Marínar Lið Brynhildar Úrslitabragð
1. Hildur 1 Dagný 0 sniðglíma hægri
2. Sigurlín 0 Annika 1 sniðglíma vinstri
3. Hanna ½ Sigríður ½ jafnglími
4. Guðrún 1 Annika 0 sniðglíma hægri
5. Hildur 0 Sigríður 1 sniðglíma hægri
6. Hanna 0 Sigríður 1 hælkrókur hægri á hægri
7. Guðrún 1 Sigríður 0 hælkrókur hægri á hægri
8. Guðrún 0 Brynhildur 1 sniðglíma hægri
9. Marín 1 Brynhildur 0 hælkrókur utanfótar vinstri