Gnúpverjar unnu stórsigur á botnliði ÍA í 1. deild karla í körfuknattleik í kvöld. Lokatölur í Kórnum í Kópavogi urðu 103-62.
Ungmennafélagarnir úr Gnúpverjahreppi höfðu örugg tök á leiknum allan tímann og juku forskotið jafnt og þétt. Staðan var 49-40 í hálfleik, en seinni hálfleikurinn var frábær hjá Gnúpverjum. Þeir tóku 3. leikhlutann með 20 stiga mun, 36-16, og leyfðu Skagamönnum síðan aðeins að skora sex stig í síðasta fjórðungnum. Að lokum skildu 41 stig liðin að.
Gnúpverjar hafa heillað íslenska körfuboltaheiminn í vetur en liðinu var spáð langneðsta sætinu í 1. deildinni. Þeir sitja nú í 7. sæti með 14 stig en Skagamenn hafa ekki unnið leik í vetur og sitja örugglega í botnsætinu.
Tölfræði Gnúpverja: Everage Richardson 37/10 fráköst, Gabríel Möller 18/6 fráköst/5 stoðsendingar, Leifur Arnason 13/4 fráköst/5 stoðsendingar, Tómas Steindórsson 12/8 fráköst, Hákon Már Bjarnason 8/9 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 5, Bjarki Rúnar Kristinsson 4, Garðar Pálmi Bjarnason 3, Haukur Þór Sigurðsson 2, Bjarni Steinn Eiríksson 1, Atli Örn Gunnarsson 4 fráköst, Gunnar Ingi Bjarnason 4 fráköst.