Gnúpverjar unnu sinn fyrsta leik í vetur þegar þeir tóku á móti ÍA í 1. deild karla í körfubolta í dag. Á sama tíma tapaði Hamar naumlega gegn Snæfelli.
Skagamenn byrjuðu betur í leiknum gegn Gnúpverjum en heimamenn náðu að minnka forskot gestanna fyrir leikhlé. Staðan var 37-41 í hálfleik.
ÍA náði níu stiga forskoti í upphafi seinni hálfleiks, 41-50, en þá tóku Gnúpverjar við sér og jöfnuðu 55-55 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af 3. leikhluta. Aftur náðu Skagamenn að rífa sig frá Gnúpverjum í upphafi 4. leikhluta, 61-67, en Gnúpverjar sneru taflinu við og komust yfir 73-69 þegar fimm mínútur voru eftir. Lokakaflinn var æsispennandi en heimamenn héldu haus og unnu góðan sigur.
Everage Richardson átti stórleik fyrir Gnúpverja og var stigahæstur með 37 stig, 7 fráköst og 5 stolna bolta. Garðar Pálmi Bjarnason skoraði 10, Bjarni Eiríksson 9 og þeir Hraunar Karl Guðmundsson, Ægir Bjarnason og Tómas Steindórsson skoruðu allir 6 stig og Tómas tók 10 fráköst að auki.
Í Stykkishólmi var einnig hörkuleikur þar sem Hamar heimsótti Snæfell. Hamar byrjaði leikinn af miklum krafti og leiddi 13-31 að loknum 1. leikhluta en staðan í hálfleik var 44-55. Snæfellingar voru hins vegar mun sprækari í síðari hálfleik. Þeir skoruðu þrettán stig í röð undir lok 3. leikhluta og minnkuðu muninn í 72-73. Hamar hafði lítið forskot inn í 4. leikhlutann en í honum voru heimamenn sterkari þó að stigamunurinn hafi verið lítill. Snæfell skoraði síðustu fjögur stig leiksins og sigraði 105-102.
Julian Nelson var frábær í liði Hamars með 38 stig og 8 fráköst. Larry Thomas skoraði 19, Arnór Ingi Ingvason 15 og Þorgeir Gíslason 11.
Hamar og Gnúpverjar eru í 6.-7. sæti deildarinnar en bæði lið hafa tvö stig. Gnúpverjar eiga stórleik í næstu umferð þegar þeir heimsækja stigalaust botnlið FSu í Iðu á Selfossi á fimmtudagskvöld.