Gnúpverjar unnu óvæntan útisigur á Vestra í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Á sama tíma tapaði Hamar heima gegn toppliði Skallagríms.
Gnúpverjar voru í góðum gír á Ísafirði og leiddu í leikhléi 48-61. Heimamenn minnkuðu muninn rækilega í 3. leikhluta en Gnúpverjar komust aftur á skrið í síðasta fjórðungnum og sigruðu að lokum 92-101.
Everage Richardson var bestur í liði Gnúpverja með 38 stig en Gabríel Möller og Atli Örn Gunnarsson áttu sömuleiðis góðan leik í kvöld.
Í Hveragerði var topplið Skallagríms í heimsókn og þar var leikurinn mjög kaflaskiptur. Staðan var 43-37, Hamri í vil í leikhléi, en Skallagrímur komst yfir í 3. leikhluta og staðan var 63-68 þegar sá fjórði hófst. Skallagrímur hélt forskotinu örugglega til leiksloka en allar varnir lágu niðri í 4. leikhluta þar sem Hamar skoraði 37 stig og Skallagrímur 43. Áttatíu stig í boði í síðasta fjórðungnum, jafnmörg og í öllum fyrri hálfleiknum. Lokatölur urðu 100-111.
Julian Nelson var bestur í liði Hamars, skoraði 25 stig og Jón Arnór Sverrisson átti sömuleiðis fínan leik.
Hamar hefur 26 stig og er í 4. sæti deildarinnar en Gnúpverjar eru komnir í 12 stig og sitja áfram í 7. sætinu.
Tölfræði Gnúpverja: Everage Lee Richardson 38/6 fráköst, Gabríel Sindri Möller 19/4 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 12/6 stoðsendingar, Leifur Steinn Arnason 11/4 fráköst, Ægir Hreinn Bjarnason 11/4 fráköst, Atli Örn Gunnarsson 4/9 fráköst/7 stoðsendingar, Garðar Pálmi Bjarnason 2/4 fráköst, Tómas Steindórsson 2/4 fráköst, Bjarki Rúnar Kristinsson 2.
Tölfræði Hamars: Julian Nelson 25, Larry Thomas 18/5 fráköst, Smári Hrafnsson 13, Dovydas Strasunskas 11/6 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 11/4 fráköst, Mikael Rúnar Kristjánsson 9, Jón Arnór Sverrisson 8/5 fráköst/7 stoðsendingar/5 stolnir, Oddur Ólafsson 5/5 fráköst.