„Góð lið finna leiðir til að vinna leiki“

Hamar lagði FSu 84-78 í spennuleik í 1. deild karla í körfubolta þegar liðin mættust í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld.

„Það var frábært að vinna þennan leik. Ég tek ofan fyrir FSu, þeir stóðu sig vel varnarlega og eru með mjög góða leikmenn. Við stóðum okkur ekki nógu vel í fyrri hálfleik, FSu var að spila hörkuvörn á okkur og við vorum kannski ekki alveg tilbúnir í það,“ sagði Ari Gunnarsson, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Stóru skotin fóru að detta hjá okkur í 4. leikhluta. Dóri skoraði mikilvægar körfur og Julian var frábær í kvöld. Þegar þessi stóru skot koma þá á ekkert lið séns í okkur,“ sagði Ari ennfremur.

FSu liðið mætti gríðarlega ákveðið til leiks og eftir fjórar mínútur var staðan orðin 4-14. Hamar minnkaði muninn í sex stig og staðan var 14-20 eftir 1. leikhluta.

Hamar skoraði sjö fyrstu stigin í 2. leikhluta og komst yfir, 21-20, en FSu svaraði jafnóðum og hélt forystunni út leikhlutann. Leikar stóðu 33-38 í hálfleik.

Ari Gylfason var heitur í upphafi síðari hálfleiks og skoraði 11 stig á upphafsmínútum hans. FSu náði þar með 11 stiga forskoti, 45-56, en þá datt Julian Nelson í gírinn fyrir Hamar. Hann skoraði fimmtán stig á lokamínútum 3. leikhluta og jafnaði 65-65 áður en flautan gall.

Staðan var því jöfn þegar síðasti fjórðungurinn hófst og ómögulegt að ráða í framhaldið. Fyrirliði Hamars, Halldór Gunnar Jónsson, gaf hins vegar tóninn í fyrstu sókn Hamars og setti niður stóran þrist. FSu kom til baka með 2-9 áhlaupi og leiddi þá með fjórum stigum, 70-74.

Næstu mínútur átti hins vegar Hamar leikinn því ekkert gekk upp hjá FSu í sókninni á meðan vörnin small loksins saman hjá Hamri. Heimamenn skoruðu tólf stig í röð og þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 82-74. Bæði lið gerðu mistök í síðustu sóknum sínum og FSu náði ekki að brúa bilið. Lokatölur 84-78.

Eric Olson, þjálfari FSu, sagði að úrslit leiksins væru vonbrigði því FSu hafi átt gott tækifæri til að leggja Hamar á þeirra heimavelli.

„Við misstum þennan leik frá okkur sem lið. Við höfðum tækifæri til þess að sigra þá á heimavelli en Hamar er með gott lið og góð lið finna leiðir til að vinna leiki. Við áttum erfitt með að skora í 4. leikhlutanum og í seinni hálfleiknum gáfum við þeim auðveld færi og vítaskot. Þeir skoruðu úr fimmtán vítum í seinni hálfleik og á móti fjórum vítum hjá okkur og það er mikill tölfræðimunur þegar þú tapar leiknum með sex stigum,“ sagði Olson í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við mættum vel stemmdir til leiks, við vissum að þetta yrði slagur en svo misstum við aðeins sjálfstraustið undir lokin. Úrslitin réðust á lokamínútunum og við vissum að það yrði þannig. Nú eigum við átján leiki eftir til að bæta okkur og höldum bara okkar striki, en þetta voru vonbrigði í kvöld,“ sagði Olson.

Julian Nelson skoraði 34 stig fyrir Hamar, Halldór Gunnar 19 og Þorsteinn Gunnlaugsson átti fínan leik með 13 stig og 14 fráköst. Örn Sigurðarson skoraði 6 stig og þeir Snorri Þorvaldsson, Kristinn Ólafsson og Bjarni Rúnar Lárusson skoruðu allir 4 stig.

Ari Gylfason skoraði 20 stig fyrir FSu, Maciej Klimaszewski 17, Collin Pryor 14 auk 16 frákasta, Birkir Víðisson 9, Svavar Stefánsson 6, Þórarinn Friðriksson 5, Hlynur Hreinsson 3 og þeir Erlendur Stefánsson og Geir Helgason skoruðu báðir 2 stig.


Ari Gylfason skoraði tuttugu stig fyrir FSu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinSkaftholt og Sólheimar hljóta tilnefningu
Næsta greinLeitað að konum um leið og þjónustan er skert