Hamar vann góðan sigur á KFÍ í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, þegar liðin mættust í Frystikistunni í Hveragerði.
Hamarsmenn voru frábærir í upphafi leiks og skoruðu tuttugu stig á fyrstu fjórum mínútum leiksins. Staðan var þá orðin 20-9, en leikar stóðu 34-23 að loknum fyrsta leikhluta.
Annars var leikurinn í járnum það sem eftir lifði leiks, KFÍ náði að saxa á forskot Hamars í 2. leikhluta og staðan var 52-46 í hálfleik.
Hamar hafði frumkvæðið í síðari hálfleik en Ísfirðingar voru aldrei langt undan, leiddir áfram í sókninni af Christopher Anderson, fyrrum leikmanni FSu. Gestirnir náðu þó ekki að ógna Hvergerðingum í lokin og úrslit leiksins urðu 97-85.
Samuel Prescott jr. var stigahæstur Hvergerðinga með 39 stig, Sigurður Hafþórsson skoraði 19, Þorsteinn Gunnlaugsson 14 og Örn Sigurðarson 11.