Góður sigur FSu í mikilvægum leik

FSu vann góðan sigur á Breiðabliki í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 93-84. Liðin eru í hörkukeppni um sæti í úrslitakeppninni og höfðu bæði 10 stig fyrir leikinn.

Taugarnar voru þandar hjá liðunum og hart barist allan tímann. Blikar komust fljótlega yfir í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 13-19. Gestirnir juku forskotið enn frekar í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik, 35-46.

Það var allt önnur stemmning hjá FSu liðinu í seinni hálfleik þar sem Selfyssingar skoruðu fimmtán fyrstu stigin í 3. leikhluta og komust yfir, 54-50 eftir 19-4 áhlaup. Þeir héldu forystunni út 3. leikhluta en staðan var 58-54 þegar sá fjórði hófst.

FSu gerði endanlega út um leikinn á fyrstu fimm mínútum 4. leikhluta með annarri góðri rispu, 18-3, og þá var staðan orðin 76-57. Blikar klóruðu í bakkann á lokamínútunum en náðu ekki að vinna upp forskot Selfyssinga.

Collin Pryor átti stórleik fyrir FSu með 33 stig, 16 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Framlagseinkunn hans var 50. Sæmundur Valdimarsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir FSu í vetur en hann er kominn á Selfoss í láni frá Stjörnunni. Sæmundur skoraði 17 stig, Erlendur Stefánsson 10, Ari Gylfason og Svavar Stefánsson 8, Arnþór Tryggvason 4 og Hlynur Hreinsson 3.

FSu hefur nú 12 stig í 5. sæti deildarinnar, en það er síðasta sætið inn í úrslitakeppnina.

Fyrri greinHver elskar ekki förðunarráð?
Næsta grein25 milljónum ráðstafað í ár