Hamar vann góðan sigur á ÍR í gærkvöldi í 1. deild kvenna í körfubolta. Lokatölur í Hellinum í Breiðholti urðu 39-50.
Fyrri hálfleikur var jafn og lítið skorað framan af leik. Hamar leiddi 21-24 í leikhléi. Hvergerðingar höfðu yfirhöndina stærstan hluta síðari hálfleiks og sigur þeirra var öruggur í lokin.
Álfhildur Þorsteinsdóttir var best í liði Hamars en hún var grimm í fráköstunum og tók 16 alls. Fjögur í sókn og tólf í vörn.
Hamar á tvo leiki eftir í deildinni en næsti leikur er strax í kvöld, þegar Grindavík kemur í heimsókn í Frystikistuna í Hveragerði.
Tölfræði Hamars: Vilborg Óttarsdóttir 15/6 fráköst, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 13, Álfhildur E. Þorsteinsdóttir 7/16 fráköst, Fríða Margrét Þorsteinsdóttir 5, Ragnheiður Magnúsdóttir 4, Helga Sóley Heiðarsdóttir 3, Þórunn Bjarnadóttir 2/7 fráköst/6 stoðsendingar/6 stolnir, Bjarney Sif Ægisdóttir 1.