Selfyssingar unnu góðan sigur á Stjörnunni í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 28-27 á heimavelli. Leikurinn var kaflaskiptur en Selfyssingar voru sterkari í síðari hálfleik.
Varnarleikurinn var ekki góður hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var 14-16 fyrir Stjörnunni. Arnar Gunnarsson, þjálfari, las vel yfir sínum mönnum í hálfleik og við það lagaðist varnarleikurinn og mörkin fóru að detta inn úr hraðaupphlaupum. Áður höfðu Selfyssingar átt í erfiðleikum í sókninni þar sem mikið mæddi á Atla Kristinssyni og Matthíasi Halldórssyni fyrir utan en töluverð meiðslavandræði hrjá skyttur liðsins og voru þeir Atli og Matthías einu leikfæru skytturnar í kvöld.
Hörður Bjarnarson var markahæstur Selfyssinga í leiknum með átta mörk. Atli Kristinsson kom næstur honum með sjö mörk en slaka skotnýtingu. Ómar Vignir Helgason skoraði fjögur mörk, Guðni Ingvarsson var með þrjú mörk og gott varnarframlag. Matthías Halldórsson skoraði tvö mörk og þeir Gunnar Ingi Jónsson og Ívar Grétarsson skoruðu sitt markið hvor.
Sverrir Andrésson kom sterkur inn í markið og varði 17/2 skot og Helgi Hlynsson varði 3/1 skot.
Selfyssingar hafa þokast upp stigatöfluna og eru nú tveimur stigum á eftir ÍBV í 5. sæti en liðin mætast í næstu viku í Vestmannaeyjum.