Í dag hefst keppni í 1. deild karla í knattspyrnu. Selfyssingar taka á móti KA í fyrstu umferð og hefst leikurinn kl. 15:00 á Selfossvelli.
Selfyssingar féllu úr Pepsi-deildinni síðasta sumar og síðan þá hafa miklar breytingar orðið á liðinu. Af þeim 24 leikmönnum sem spiluðu fyrir liðið í fyrra eru aðeins fjórir enn í hópnum. Í staðinn hafa komið átta leikmenn til liðsins, þar af fjórir erlendir, einn á láni og einn enskur Selfyssingur – fyrirliðinn Andy Pew.
Þá er einnig kominn nýr þjálfari. Logi Ólafsson sem þjálfaði liðið síðustu tvö ár fór í Garðabæinn og í hans stað kom Gunnar Guðmundsson, sem áður þjálfaði yngri landslið Íslands.
Gunnar segir að undirbúningstímabilið hafi gengið ágætlega. „Það hefur verið góður stígandi hjá okkur og ég er nokkuð sáttur líkamlegt ástand á liðinu. Það hefur verið að spila sig betur og betur saman eftir því sem hefur liðið nær móti,“ segir Gunnar. „En auðvitað veit maður aldrei hvar maður stendur fyrr en Íslandsmótið sjálft byrjar. Þá kemur fyrst sannleikurinn í ljós.“
Leikmannahópurinn er að stórum hluta byggður upp á Selfyssingum og margir þeirra eru að stíga sín fyrsta skref í meistaraflokki. „Síðan hafa komið tveir, þrír strákar af höfðuborgarsvæðinu og svo þessir erlendu leikmenn. Það var nauðsynlegt að fá aðeins meiri reynslu inn í hópinn og fá aðeins sterkari hóp. Mér finnst sú samsetning hafa tekist ágætlega og ég er sáttur við þá hluti sem hafa verið að gerast í vetur hjá okkur,“ segir þjálfarinn.
Eftir að hafa misst marga lykilleikmenn frá því á síðasta tímabili, eins og Jón Daða Böðvarsson og Babacar Sarr, endurheimtu Selfyssingar tvo menn í haust sem var ætlað að vera lykilleikmenn í sumar. Þá Einar Ottó Antonsson og Jóhann Ólaf Sigurðsson. Því miður hafa þeir ekki náð að æfa sem skildi vegna meiðsla og einnig hafa tveir af erlendu leikmönnunum verið frá vegna meiðsla.
„Einar Ottó hefur verið meira eða minna frá í allan vetur, en ég er að vonast eftir því að hann komi inn um mitt mót og það yrði mikill liðsstyrkur af honum þá,“ segir Gunnar sem verður einnig án þeirra Luca Jagacic og Juan Povedano í fyrsta leik en samkvæmt heimildum sunnlenska.is er mögulegt að Spánverjinn Povedano verði sendur heim aftur vegna meiðslanna.
„Jóhann Ólafur er í fínu standi vegna þess að hann náði að halda sér vel við þó hann hafi ekki mátt spila fótbolta. Þannig að í þessar tvær vikur sem hann hefur fengið hefur hann náð að vinna sig vel inn og verður klár í slaginn í fyrsta leik,“ segir Gunnar.
Hann reiknar ekki með því að bæta við sig leikmönnum fyrir mót en félagsskiptaglugginn lokar þann 15. maí. „Ég á ekki von á því nema að eitthvað óvænt komi upp á, að við lendum í hremmingum, þá gætum við þurft að grípa inn í. Ef ekkert alvarlegt kemur upp á held ég að þessi hópur sé alveg klár í slaginn,“ segir Gunnar.
Selfossliðinu var spáð 5. sætinu á vefsíðunni fotbolti.net fyrir mótið. Gunnar er á því að það sé ekki óraunhæf spá. „Ég held að það sé mjög eðlilegt miðað við þær miklu breytingar sem hafa orðið á hópnum síðan síðasta sumar þá er ekki raunhæft að ætlast til þess að liðið fari beint upp aftur. En við stefnum á að vera að berjast í efri hlutanum og fimmta sætið og allt þar fyrir ofan er það sem við viljum helst vera að berjast um,“ segir þjálfarinn að lokum.