Þórsarar hófu tímabilið í Domino's-deild karla í körfubolta með útisigri á Snæfelli í Stykkishólmi í kvöld. Lokatölur í Hólminum voru 81-92.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en Snæfell náði fimm stiga forskoti undir lok hans, 24-19. Um miðjan 2. leikhluta var forskot Snæfells orðið sjö stig en Þór svaraði þá með sjö stigum í röð og jafnaði 38-38. Þá gáfu heimamenn aftur í og leiddu í hálfleik, 46-40.
Eins og í fyrri hálfleik var allt í járnum í upphafi þess síðari. Þórsarar jöfnuðu fljótlega, 53-53, og luku svo leikhlutanum á 3-13 áhlaupi þannig að staðan að loknum 3. leikhluta var 59-68, Þór í vil. Ragnar Nathanaelsson var í miklu stuði á þessum kafla og skoraði tíu stig í leikhlutanum.
Þórsarar náðu svo að vera skrefinu á undan í 4. leikhluta og halda Snæfellingum í að minnsta kosti tíu stiga fjarlægð allt til leiksloka.
Mike Cook Jr. átti fínan leik fyrir Þór og skoraði 38 stig, Nemanja Sovic skoraði 18 og Ragnar Nathanaelsson 17 auk þess að taka 14 fráköst en Ragnar var flottur í kvöld, sérstaklega í síðari hálfleik. Tómas Heiðar Tómasson skoraði 9 stig, Baldur Þór Ragnarsson 6 og þeir Emil Karel Einarsson og Þorsteinn Már Ragnarsson skoruðu 2 stig hvor.