Góð byrjun lagði grunninn að sigrinum

George Razvan sækir að marki Afríku. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir unnu tiltölulega öruggan sigur gegn Afríku þegar liðin mættust í 5. deild karla í knattspyrnu á Flúðavelli í gærkvöldi.

Uppsveitamenn mættu heitari til leiks og voru komnir í 3-0 eftir fjórtán mínútna leik með tveimur mörkum frá George Razvan og einu frá Quico Vano. Þar með töldu heimamenn björninn unninn en svo var ekki og Afríka svaraði með tveimur mörkum með fjögurra mínútna millibili, 3-2 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum gekk heimamönnum illa að færa boltann upp völlinn og Afríka fékk góð færi til þess að jafna leikinn. Tíu mínútum fyrir leikslok var Tómas Ingi Ármann hins vegar mættur inn í vítateig Afríku og skoraði fjórða mark heimamanna og þar með var björninn unninn, 4-2.

Staðan í riðlinum er þannig að Uppsveitir eru í 6. sæti með 10 stig en Afríka situr í botnsætinu án stiga.

Fyrri greinMeirihluti bæjarstjórnar Árborgar á alvarlegum villigötum
Næsta greinUppbygging heldur áfram í Tjarnabyggð