„Góð frammistaða hjá strákunum“

Árni Steinn Steinþórsson lék mjög vel í vörn og sókn í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar sýndu styrk sinn í seinni hálfleik þegar þeir lögðu HK 29-25 í Olísdeild karla í handbolta í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.

„Ég er glaður með að vinna góðan sigur á heimavelli gegn hörkuliði HK. Við byrjuðum þetta mjög vel, vörnin var fín en vantaði kannski aðeins dýnamík í sóknina. Svo dettum við niður og verðum passívir bæði í vörn og sókn, styttum sóknirnar og förum að spila óskynsamlega. HK gekk á lagið þarna og átti skilið að fara með forystuna inn í hálfleik,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við vorum líkari okkur í seinni hálfleik. Það var mikilvægt að byrja seinni hálfleikinn vel og við ræddum það í hálfleik. Vörnin virkaði mjög vel og Sölvi var frábær fyrir aftan. Við fengum mörk úr hraðaupphlaupum og hröðum sóknum og þetta var bara góð frammistaða hjá strákunum,“ sagði Grímur ennfremur.

HK óvænt yfir í hálfleik
Selfyssingar voru flottir í upphafi leiks og leiddu 8-4 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Þá tók þjálfari HK leikhlé og stappaði stálinu í sína menn svo um munaði. HK sneri leiknum sér í vil og hafði forystu í hálfleik, 12-14.

Grímur þjálfari fór vel yfir málin með sínum mönnum í leikhléi og þeir mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik. Selfoss skoraði þrjú fyrstu mörkin og náði forystunni aftur, 15-14, og þá var ekki aftur snúið. Selfossvörnin var sterk í seinni hálfleiknum og Haukur Þrastarson fór mikinn í sókninni.

Haukur, Sölvi og Árni Steinn frábærir
Haukur Þrastarson var frábær í liði Selfoss í kvöld, skoraði 8 mörk og sendi 6 stoðsendingar. Hergeir Grímsson skoraði 6/3, Alexander Egan, Atli Ævar Ingólfsson og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu allir 4 mörk og Árni Steinn átti stórleik í vörninni með 12 lögleg stopp og sömuleiðis gott framlag í sóknarleiknum. Guðni Ingvarsson, Nökkvi Dan Elliðason og Hannes Höskuldsson skoruðu allir 1 mark.

Sölvi Ólafsson var frábær í marki Selfoss, varði 16 skot, þar af 3 vítaskot og var með 39% markvörslu.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 5 stig en HK er í 11. sæti án stiga.

Fyrri greinTurudija bestur í 2. deildinni
Næsta greinHlaut milljón króna styrk úr Hvatningarsjóði kennaranema