Alls mættu 44 keppendur af sambandssvæði HSK á Landsmót 50+ sem haldið var í Vogum á Vatnsleysuströnd dagana 6.–9. júní í samstarfi við Þrótt í Vogum og Sveitarfélagið Voga.
Þátttakan af sambandssvæðinu hefur ekki verið meiri frá upphafi mótanna, utan mótsins 2017 sem haldið var í Hveragerði, en þá tóku 108 keppendur af svæðinu þátt. Samkvæmt upplýsingum frá UMFÍ tóku um 400 manns þátt í mótinu í ár.
Keppendur af HSK svæðinu tóku þátt í fjölmörgum greinum, flestir voru í bridds, boccia, ringói og frjálsíþróttum. Einnig tóku þeir þátt í golfi og stígvélakasti.
Keppendur af Suðurlandi unnu Landsmótsmeistaratitla í þremur greinum, þ.e. í frjálsum, golfi og stígvélakasti. Eins og talið er upp hér að neðan:
Frjálsíþróttir
Ólafur Guðmundsson keppti í 55-59 ára flokki og vann allar sex greinarnar sem hann tók þátt í sem voru 100 m hlaup, hástökk, kringla, kúla, spjót og lóðkast. Yngvi Karl Jónsson keppti í 60-64 ára flokki og vann hástökk, kringlukast, kúluvarp og spjótkast. Árný Heiðarsdóttir sem flutt er á Selfoss og keppir í flokki 65-69 ára vann kringlukast, kúluvarp, lóðkast og spjót. Páll Jökull Pétursson keppti í 65-69 ára flokki og vann kringlukast, kúluvarp og spjótkast. Sigurlín Jóna Baldursdóttir vann kringlukast og lóðkast í flokki 60-64 ára kvenna. Þá vann Anný Ingimarsdóttir kúluvarp í flokki 55-59 ára kvenna.
Golf
Jón Lúðvíksson varð Landsmótsmeistari í golfi í flokki karla 65 ára og eldri.
Stígvélakast
Síðasta grein landsmóta 50+ er jafnan stígvélakast og þar varð Árný Heiðarsdóttir meistari í flokki kvenna 50 – 69 ára.
Næsta Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Fjallabyggð á næsta ári, þ.e. á Siglufirði og Ólafsfirði dagana 27.–29. júní 2025 í samstarfi við Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar (UÍF) og Sveitarfélagið Fjallabyggð.