Góðir sigrar Hamars og Selfoss

Jaeden King var sprækur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann mikilvægan sigur á Breiðabliki í kvöld í 1. deild karla í körfubolta á sama tíma og Selfyssingar unnu langþráðan sigur á Skallagrím.

Hamarsmenn voru í góðum gír í kvöld og þeir höfðu frumkvæðið lengst af. Staðan í hálfleik var 49-41. Blikar voru aldrei langt undan og á lokamínútunum hljóp mikil spenna í leikinn. Breiðablik náði þrisvar að minnka muninn í eitt stig á síðustu fjórum mínútunum en Hamar hélt sjó og sigraði að lokum 91-87.

Jose Medina var stigahæstur Hamarsmanna með 23 stig og 7 stoðsendingar og Jaeden King var framlagshæstur með 21 stig og 13 fráköst.

Loksins sigur hjá Selfyssingum
Það tók Selfyssinga fimm mínútur að stilla sig af í leiknum gegn Skallagrím en eftir að þeir komust yfir undir lok 1. leikhluta litu þeir ekki til baka og lönduðu nokkuð öruggum sigri. Staðan í hálfleik var 50-29. Skallagrímur saxaði hægt og bítandi á forskotið í seinni hálfleik en tíminn vann með Selfyssingum sem sigruðu að lokum 87-84.

Vojtéch Novák átti stórleik fyrir Selfyssinga, skoraði 30 stig og tók 10 fráköst. Ísak Júlíus Perdue skilaði sömuleiðis góðu framlagi og daðraði við þrefalda tvennu, skoraði 10 stig, sendi 10 stoðsendingar og tók 8 fráköst.

Hamar er áfram í hörkubaráttu við Ármann á toppnum, bæði lið hafa 22 stig í 1.-2. sæti. Selfyssingar lyftu sér úr botnsætinu í kvöld, eru í 11. sæti með 6 stig eins og Skallagrímur og Snæfell.

Hamar-Breiðablik 91-87 (26-20, 23-21, 24-21, 18-25)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 23/7 stoðsendingar, Jaeden King 21/13 fráköst, Fotios Lampropoulos 14/13 fráköst/6 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson 10, Daníel Sigmar Kristjánsson 8, Egill Þór Friðriksson 6, Arnar Dagur Daðason 5, Ragnar Nathanaelsson 4/10 fráköst.

Selfoss-Skallagrímur 87-84 (21-17, 29-12, 19-26, 18-29)
Tölfræði Selfoss: Vojtéch Novák 30/10 fráköst/5 stoðsendingar, Ari Hrannar Bjarmason 12/6 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 10/8 fráköst/10 stoðsendingar, Gísli Steinn Hjaltason 10/6 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 10, Tristan Máni Morthens 9/6 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 4, Arnór Bjarki Eyþórsson 2/6 fráköst.

Fyrri greinLoksins íslensk ábreiða