Kvennalið Selfoss tók á móti Snæfelli í 1. deildinni í körfubolta í dag. Eftir hörkuleik unnu heimakonur öruggan sigur, 88-76.
Tæplega klukkutíma seinkun varð á leiknum þar sem dómararnir skiluðu sér ekki í hús fyrr en seint og um síðir. Selfossliðið lét það ekki á sig fá og voru ákveðnar í upphafi leiks.
Selfoss byrjaði leikinn á 13-4 áhlaupi en Snæfell lokaði 1. leikhluta vel og staðan að honum loknum var 21-23. Selfoss skoraði níu stig í röð í upphafi 2. leikhluta og breytti stöðunni í 30-25. Þær héldu forystunni fram að leikhléi og staðan í hálfleik var 47-40.
Gestirnir úr Stykkishólmi byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og þær komust yfir 50-53. Valdís Una Guðmannsdóttir slökkti hins vegar í þeim með tveimur þriggja stiga körfum í röð og eftir það héldu Selfyssingar þægilegu forskoti allt til leiksloka. Staðan var orðin 74-63 í upphafi 4. leikhluta og léku vel á lokamínútunum og sigruðu að lokum 88-76.
Donasja Scott var stigahæst í liði Selfoss með 20 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar, Eva Rún Dagsdóttir skoraði 18, Perla María Karlsdóttir skoraði 17 stig og tók 9 fráköst og Valdís Una Guðmannsdóttir skoraði 15 stig.
Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 4 stig, Snæfell hefur jafn mörg stig í 4. sætinu og á leik til góða.
Selfoss-Snæfell 88-76 (21-23, 26-17, 25-23, 16-13)
Tölfræði Selfoss: Donasja Terre Scott 20/9 fráköst/6 stoðsendingar, Eva Rún Dagsdóttir 18/6 fráköst/5 stoðsendingar, Perla María Karlsdóttir 17/9 fráköst, Valdís Una Guðmannsdóttir 15, Anna Katrín Víðisdóttir 10/7 fráköst, Sigríður Svanhvít Magnúsdóttir 4, Eva Margrét Þráinsdóttir 2, Elín Þórdís Pálsdóttir 2, Kolbrún Katla Halldórsdóttir 1 stoðsending/1 stolinn bolti.