Hamar heimsótti KV á Meistaravelli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Þetta var hörkuleikur þar sem Hamar hafði betur, 88-95.
Hamar leiddi allan fyrri hálfleikinn og náði mest fjórtán stiga forskoti í 2. leikhluta. Staðan var 40-47 í hálfleik. KV byrjaði betur í seinni hálfleik og þeir jöfnuðu 54-54 þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af 3. leikhluta.
Leikurinn var hnífjafn eftir það, allt þar til í upphafi 4. leikhluta að Hamar náði að byggja upp tíu stiga forskot. Hvergerðingar héldu forystunni allt til enda, þó að Vesturbæingar hafi raðað niður þristum á lokamínútunum til þess að reyna að saxa á forskotið.
Jose Medina var stigahæstur Hamarsmanna með 28 stig og 7 stoðsendingar en Jaeden King var framlagshæstur með 27 stig og 9 fráköst.
Mikil spenna er á toppi 1. deildarinnar, Ármann og Hamar hafa 20 stig en ÍA og Sindri hafa 18 stig og hafa leikið einum leik færra. KV er í 7. sæti með 10 stig.
KV-Hamar 88-95 (18-25, 22-22, 28-24, 20-24)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 28/6 fráköst/7 stoðsendingar, Jaeden King 27/9 fráköst, Fotios Lampropoulos 12/6 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 12/6 stoðsendingar, Egill Þór Friðriksson 6, Ragnar Nathanaelsson 6/6 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 4/6 fráköst.