Hamar tók á móti KV í fyrstu umferð 1. deildar karla í körfubolta í Hveragerði í gærkvöldi. Eftir kaflaskiptan leik vann Hamar öruggan sigur.
Hamarsmönnum er spáð góðu gengi í vetur en í spá félaganna eru þeir öruggir í toppsætinu. KV urðu hins vegar langneðstir í spánni, en það var ekki að sjá í leiknum í gær að þarna væru að berjast lið á sitthvorum enda töflunnar.
KV byrjaði betur í leiknum og leiddi þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar en Hamar komst yfir í kjölfarið og staðan var 28-24 eftir 1. leikhluta. Í 2. leikhluta gekk ekkert upp hjá Hvergerðingum og KV náði mest átta stiga forskoti en staðan var 40-47 í hálfleik.
Það var allt í járnum fyrstu fimm mínúturnar í seinni hálfleiknum en undir lok 3. leikhluta tóku Hamarsmenn af skarið og í upphafi 4. leikhluta var munurinn orðinn 11 stig, 75-64. Hvergerðingar litu ekki til baka eftir það, keyrðu á KV-menn og unnu að lokum öruggan sigur, 103-88.
Jaeden King var stigahæstur hjá Hamri með 36 stig en Jose Medina var einnig með gott framlag og Ragnar Nathanaelsson skilaði sínu á báðum endum vallarins.
Tölfræði Hamars: Jaeden King 36/8 fráköst, Jose Medina 21/13 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 15/9 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 14/4 fráköst, Fotios Lampropoulos 10/5 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 4, Egill Þór Friðriksson 3, Daníel Sigmar Kristjánsson 4 fráköst, Arnar Dagur Daðason 1 frákast, Birkir Máni Daðason 1 stolinn bolti, Kristófer Kató Kristófersson 1 stolinn bolti.