Góður lokasprettur tryggði sigurinn

Anna Katrín Víðisdóttir var stigahæst Selfyssinga með 24 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann góðan sigur á Keflavík-b í 1. deild kvenna í körfubolta í gærkvöldi, 75-69. Þetta var síðasti heimaleikur Selfyssinga í deildarkeppninni í vetur.

Heimakonur leiddu framan af 1. leikhluta en Keflvíkingar kláruðu hann betur og staðan var 14-14 eftir tíu mínútna leik. Í 2. leikhluta var allt í járnum og liðin skiptust á um að hafa forystuna en Selfoss leiddi í hálfleik, 33-31.

Leikurinn var áfram hnífjafn í 3. leikhluta en undir lok hans og í upphafi þess fjórða átti Selfoss góðan sprett og náði 7 stiga forskoti, 53-46. Keflvíkingar játuðu sig ekki sigraðar og náðu snögglega að komast yfir. Lokaspretturinn var spennandi en Selfossliðið nýtti sóknir sínar mun betur á lokamínútunum og vann að lokum nokkuð öruggan sigur.

Anna Katrín Víðisdóttir var stigahæst Selfyssinga með 24 stig, Eva Rún Dagsdóttir skoraði 14 stig, tók 7 fráköst og sendi 5 stoðsendingar og Vilborg Óttarsdóttir skoraði 12 stig og tók 8 fráköst.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en Keflavík-b er í 6. sæti með 6 stig.

Fyrri greinAuðgandi landbúnaður – ráðstefna 2. apríl
Næsta greinReitir reisa hraðhleðslustöðvar í Hveragerði