Kvennalið Hamars vann góðan heimasigur gegn Grindavík-B í 1. deildinni í körfubolta í gærkvöldi, 82-61.
Hamar leiddi frá upphafi og sigur liðsins var í raun aldrei í hættu. Grindavík náði góðu áhlaupi þegar þær skiptu yfir í svæðisvörn en Hamarskonur gáfust aldrei upp og héldu öruggri forystu allan leikinn.
Liðsheildin var góð og stigin dreifðust á marga. Besti leikmaður Hamars var Íris Ásgeirsdóttir með 21 stig, 8 fráköst og 3 stolna bolta. Rannveig Reynisdóttir skoraði 12 stig, öll úr þriggja stiga skotum. Álfhildur Þorsteinsdóttir var með 12 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar og Jenný Harðardóttir skoraði 10 stig og tók 8 fráköst. Annars dreifðist stigaskorið vel og allir tólf leikmenn komu inná og sýndu góða baráttu.