Í dag gengu 75 manns á Miðfell í Hrunamannahreppi þegar Fjölskyldudagur UMFÍ var haldinn í Miðfellshverfinu.
UMFÍ og HSK héldu daginn í samvinnu með það að markmiði að vekja athygli á átakinu “Hættu að hanga! Komdu að hjóla synda eða ganga” sem sett var í dag, sem og verkefninu „Fjölskyldan á fjallið“ en Miðfell og Bjólfell á Rangárvöllum eru fjöll HSK í þessu verkefni í ár.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, fluttu ávörp áður en Íþróttaálfurinn og Solla stirða mættu á svæðið og hristu upp í mannskapnum. Um 250 manns voru viðstödd þessa dagskrá en að henni lokinni gengu 75 göngugarpar á öllum aldri á Miðfell undir leiðsögn Karls Gunnlaugssonar.
Farið var með póstkassa upp á Miðfell og er fólk hvatt til að ganga þar upp í sumar og skrifa í gestabókina.