„Endre er laus úr prísundinni og kemur inn í hópinn. Ivar er auðvitað meiddur, því miður, og það er sama sagan með Jóa,“ segir Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, en liðið mætir Stjörnunni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Stjarnan hefur verið á flugi í síðustu leikjum og situr nú í þriðja sæti deildarinnar. „Þeir spila leiftrandi sóknarleik og skora mörg mörk en það er einhver leið í gegnum vörnina hjá þeim sem við ætlum að nýta okkur,“ segir Logi.
„Við göngum bjartsýnir til þessa leiks og ætlum að halda áfram að gera það sem við vorum að gera síðasta hálftímann á móti Keflavík,“ bætti Logi við.
Stutt er á milli leikja þessa dagana en liðið leikur aftur á sunnudaginn gegn Þrótti í 8-liða úrslitum bikarsins. Logi vill meina að gott hafi verið að ná í stig gegn Keflavík á mánudaginn fyrir þessa leiki.
„Það var alveg bráðnauðsynlegt. Öll stig eru vel þegin og þetta stig sem við fengum þar er mjög þýðingarmikið fyrir okkur,“ segir Logi.
Selfoss situr í 10. sæti deildarinnar með 8 stig. Leikurinn í kvöld er á Selfossvelli og hefst kl. 19.15.