GOS upp um deild í sveitakeppninni

Karlasveit Golfklúbbs Selfoss fór upp úr 4. deildinni þegar sveitakeppni GSÍ fór fram um síðustu helgi. Deildin var spiluð á Hlíðarendavelli í Skagafirði.

Sex leikmenn skipuðu sveitina. Bergur Sverrisson, liðsstjóri, valdi þá Hjört Leví Pétursson, Símon Leví Héðinsson og Andra Pál Ásgeirsson en hinir þrír, Hlynur Geir Hjartarson, Jón Ingi Grímsson og Bergur sjálfur, spiluðu sig inn í liðið í gegnum úrtökumót sem fóru fram fyrr í sumar.

Markmið liðsins var skýrt fyrir mótið; að fara upp í 3. deild. Keppni hófst á föstudag og mætti GOS þá Golfklúbbnum Hamar Dalvík og Golfklúbbnum Þverá á Hellishólum í Fljótshlíð. GOS sigraði í báðum viðureignunum, 3-0.

Eftir hádegi á laugardag var síðan komið að stærstu viðureigninni, gegn Golfklúbbi Sauðárkróks, og skar sá leikur úr um hvort liðið færi upp í 3. deild. Leikurinn var mjög spennandi en Selfyssingar náðu sigri eftir hörkubaráttu og stigu villtan sigurdans að leik loknum.

Síðasti leikurinn var spilaður á sunnudag, úrslitaleikur gegn Dalvík, um sigur í deildinni. Þar fengu ungu drengirnir að spreyta sig í alvöru leik og stóðust þeir pressuna og unnu sinn leik. Þrátt fyrir það náði GOS ekki sigri og tapaði 2-1. Markmið helgarinnar, að fara upp um deild, náðist hins vegar og ungu leikmennirnir fengu góða reynslu út úr sínum leikjum.

Fyrri greinSex leikmenn frá Selfossi á landsliðsæfingar
Næsta greinSveinn og Ingólfur sækja um í Hafnarfirði