Kvennalið Selfoss tapaði fyrir Haukum í Olísdeildinni í handbolta á útivelli í dag. Slakur varnarleikur varð Selfyssingum að falli en þær fengu 39 mörk á sig í leiknum.
Haukar byrjuðu leikinn af krafti en það tók Selfyssinga nokkra stund að ná áttum. Þær vínrauðu komust yfir eftir tíu mínútna leik en í kjölfarið tóku Haukarnir völdin og leiddu fram að leikhléi, 20-15.
Haukar náðu sex marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en Selfyssingar náðu að minnka muninn niður í þrjú mörk þegar fimmtán mínútur voru eftir. Nær komust þær ekki og Haukar fögnuðu 39-33 sigri.
Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 11 mörk, Roberta Stropé skoraði 6, Tinna Soffía Traustadóttir og Rakel Guðjónsdóttir 5, Inga Sól Björnsdóttir 2 og Ásdís Þóra Ágústsdóttir 2 og Adela Eyrún Jóhannsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu 1 mark hvor.