„Gott að fá stóran sigur“

Selfoss vann öruggan 5-0 sigur á Þrótti í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust á JÁVERK-vellinum á Selfossi.

„Við náðum að klára þetta með nokkrum mörkum á stuttum tíma í fyrri hálfleik, en þrátt fyrir það þá var þetta pínu strembið. Það var mjög gott fyrir okkur að fá stóran sigur,“ sagði Erna Guðjónsdóttir í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Stigin eru líka mikilvæg. Við vissum að Þróttaraliðið ætlaði að fá stig út úr þessum leik og við þurftum að halda einbeitingu til þess að vera betra liðið og ná þessum sigri. Þetta eru alveg jafn mikilvæg stig eins og út úr leikum gegn Stjörnunni eða gegn hinum toppliðunum.“

Eftir fjörugan, fjögurra marka fyrri hálfleik, skoruðu Selfyssingar ekki fyrr en á 76. mínútu og það var alvöru mark. Sleggja frá Ernu af 25 metra færi upp í samskeytin. „Við vorum ekkert orðnar saddar í seinni hálfleik þrátt fyrir að ná ekki að skora. Ég fékk fínt tækifæri þarna og maður skorar ekki nema maður skjóti. Þetta var reyndar mjög fínt mark, örugglega eitt af mínum betri,“ sagði markaskorarinn.

Selfyssingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir strax á 10. mínútu eftir snarpa sókn. Guðmunda Brynja Óladóttir átti skot að marki en það fór í varnarmann, Donna-Kay Henry náði frákastinu, lék á einn varnarmann og lagði knöttinn í framhjá Mckenzie Sauerwein í marki Þróttar.

Selfossliðið gaf Þrótti engin grið og pressaði grimmt á köflum. Annað markið kom á 18. mínútu. Erna tók þá hornspyrnu, Sauerwein kýldi boltann frá en beint í hnakkann á liðsfélaga sínum, Evu Ólafsdóttur, og þaðan fór boltinn í netið.

Þróttarar áttu ágæta spilkafla þegar leið á fyrri hálfleikinn en Chante Sandiford hafði ekkert að gera í Selfossmarkinu framan af leik og þurfti aðeins að grípa einn æfingabolta utan af velli í fyrri hálfleik.

En sóknarlína Selfoss var ekki hætt. Guðmunda Brynja og Dagný Brynjarsdóttir bættu við mörkum á fimm mínútna kafla um miðjan hálfleikinn og staðan var 4-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var rólegri en Selfoss fékk þó ágæt færi í upphafi hans og sköpuðu yfirleitt hættu í föstum leikatriðum. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum voru Þróttarar farnir að færa sig upp á skaftið og Sandiford þurfti tvisvar að taka á knettinum og átti fínar vörslur.

Á 76. mínútu var Ernu Guðjónsdóttur farið að leiðast þófið þannig að hún tók sig til og lét vaða af 25 metra færi upp í samskeytin á marki Þróttar. Stórglæsilegt mark og staðan orðin 5-0. Þær urðu lokatölur leiksins.

Sigur Selfyssinga hefði reyndar getað orðið stærri því Sauerwein varði oft vel í marki Þróttar, auk þess sem þær vínrauðu áttu sex skot í tréverkið á Þróttaramarkinu.

„Það er pínu keppni innan liðsins hver nær að skjóta oftast í slána og stöngina,“ sagði Erna létt. „En já, þetta var dálítið mikið stöngin, sláin í kvöld.“

Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 9 stig, eins og Stjarnan og Valur, einu stigi á eftir toppliði Breiðabliks. Þór/KA situr svo í 2. sætinu, með 10 stig eins og Blikar.

Fyrri greinGöngukona fótbrotnaði við Skógafoss
Næsta greinKristinn vann bronsverðlaun