Þór Þorlákshöfn tapaði nokkuð sannfærandi þegar liðið heimsótti Keflavík í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld, 114-97.
Keflvíkingar höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 48-37. Heimamenn létu svo kné fylgja kviði í upphafi síðari hálfleiks, þar sem Þórsurum gekk ekkert í sókninni og vörnin var hriplek. Keflavík náði 35 stiga forystu, 83-48, undir lok 3. leikhluta en Þórsarar svöruðu með fimmtán stigum í röð og eygðu örlitla von í stöðunni 83-63.
Sú von var þó úr sögunni snemma í 4. leikhluta því Keflavík náði 27 stiga forskoti snemma í 4. leikhluta og það bil var alltof breitt fyrir Þórsara að brúa.
Þrátt fyrir tapið geta Þórsarar glaðst yfir því að Darrin Govens er mættur ferskur til leiks í Þorlákshöfn. Hann var besti maður vallarins í sínu fyrsta leik í vetur, skoraði 27 stig, tók 12 fráköst, sendi 7 stoðsendingar og varði 3 skot.
Grétar Ingi Erlendsson átti einnig góðan leik og skoraði 22 stig, Emil Karel Einarsson skoraði 12, Þorsteinn Már Ragnarsson 11, Tómas Heiðar Tómasson 10, Halldór Garðar Hermannsson og Nemanja Sovic 6 og Oddur Ólafsson 3.