Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við enska miðjumanninn Grace Rapp um að spila með liði félagsins í Pepsi-deild kvenna út þessa leiktíð.
Rapp, sem er 23 ára gömul, kemur til félagsins frá FC Surge á Flórída en áður lék hún við góðan orðstír með Miami Hurricanes sem er skólalið Miami háskólans. Á Englandi lék hún meðal annars með Yeovil Town en hún á að baki þrjá landsleiki fyrir U19 ára lið Englands.
„Þetta er flottur leikmaður sem við erum að fá þarna. Hún er að koma vel út á æfingum, er yfirveguð og góð á boltann og færir okkur öðruvísi vídd, bæði í sóknarleikinn og varnarleikinn. Hún er líka hörkugóð í hóp og ég er ánægður með að hafa fengið hana í þessum glugga. Hún mun hjálpa okkur í framhaldinu,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.