Grátlega nálægt sigri

Selfyssingar uppskáru þriðja jafnteflið í vetur þegar þeir tóku á móti toppliði Akureyrar í N1 deildinni í handbolta í kvöld, 31-31.

Akureyringar höfðu forystuna allan tímann í kaflaskiptum leik. Þeir komust í 4-10 en Selfoss minnkaði muninn í 10-11. Staðan var 11-15 í hálfleik.

Mest allan síðari hálfleik leiddu Akureyringar með 3-4 mörkum en á lokakaflanum féllu hlutirnir með Selfyssingum sem jöfnuðu, 29-29, þegar fimm mínútur voru eftir. Selfyssingar komust í kjölfarið yfir í fyrsta sinn í leiknum, 30-29, og lokamínúturnar voru æsispennandi.

Atli Kristinsson kom Selfoss í 31-30 þegar 20 sekúndur voru eftir en Akureyringar fjölguðu í sókninni og jöfnuðu með fimm sekúndur á klukkunni. Guðni Ingvarsson fékk boltann á miðjum vellinum og skoraði í autt markið en dómararnir dæmdu markið af þar sem Guðni stóð ekki á miðlínunni. Nokkrum andartökum áður höfðu Akureyringar tekið samskonar miðju og skorað, án þess að dómararnir sæju ástæðu til að grípa inní.

Ragnar Jóhannsson skoraði 7/3 mörk fyrir Selfoss, Guðjón Drengsson 6, Andrius Zigelis 4, Atli Kristinsson, Guðni Ingvarsson og Milan Ivancev 3, Einar Héðinsson og Gunnar Jónsson 2 og Helgi Héðinsson 1.

Sebastian Alexandersson var frábær í markinu í fyrri hálfleik þegar hann varði 12 af 14 skotum sínum. Birkir Bragason kom inn síðasta korterið og varði 6 skot.

Fyrri greinOlís og GOS í samstarf
Næsta greinHálkuslys á Hvolsvelli