Selfyssingar töpuðu 0-1 þegar þeir fengu ÍBV í heimsókn í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld. Sigurmark Eyjamanna kom á fjórðu mínútu uppbótartíma.
Leikurinn var jafn allan tímann og sáust fín tilþrif inn á milli. Bæði lið fengu ákjósanleg færi í venjulegum leiktíma og Selfyssingar fóru illa með nokkur dauðafæri.
Eina mark leiksins kom úr vítaspyrnu á 94. mínútu en nokkrum mínútum áður hafði dómari leiksins sleppt því að dæma augljóst víti á ÍBV þegar brotið var á Þorsteini Daníel Þorsteinssyni í vítateig Eyjamanna.
Selfoss er 7. sæti riðilsins með 6 stig og mætir næst Valsmönnum á Selfossvelli þann 10. apríl.