Stokkseyri tapaði fyrir KB í hörkuleik í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Stokkseyrarvelli urðu 2-3 en sigurmark gestanna kom í uppbótartíma.
Gestirnir komust yfir strax á fjórðu mínútu leiksins en Stokkseyringar voru mikið með boltann í kjölfarið og fengu ágæt færi. Gestirnir beittu hins vegar stórhættulegum skyndisóknum og hefðu getað bætt við mörkum áður en þeir komust í 0-2 á 26. mínútu.
Barði Páll Böðvarsson minnkaði muninn í 1-2 á 40. mínútu með stórglæsilegu marki og Barði var aftur á ferðinni á 45. mínútu þegar hann átti hörkuskot í stöngina.
Staðan var 1-2 í hálfleik en Örvar Hugason jafnaði metin fyrir Stokkseyringa strax á 5. mínútu síðari hálfleiks. Markið var rándýrt og það glæsilegasta sem sést hefur á Stokkseyrarvelli í sumar, gamaldags negla rétt fyrir framan miðjubogann sem vindurinn hjálpaði alla leið í netið, alveg út við stöng.
Stokkseyringar voru sterkari í síðari hálfleik og undir lokin lögðu þeir allt kapp á sóknarleikinn til þess að krækja í þrjú stig. Það reyndist dýrt því þeir fengu skyndisókn í bakið í uppbótartíma og úr henni skoraði Garðar Geirsson sitt þriðja mark fyrir KB og tryggði gestunum sigurinn.
Stokkseyri er í 6. sæti riðilsins með fjögur stig.