Grétar Ingi valinn íþróttamaður Ölfuss

Á gamlársdag var íþróttamaður Sveitarfélagsins Ölfuss 2012 valinn og viðurkenningar veittar íþróttamönnum. Það var körfuknattleiksmaðurinn Grétar Ingi Erlendsson sem hampaði titlinum.

Grétar átti frábært tímabil með liði Þórs sem varð í 2. sæti á Íslandsmótinu í körfuknattleik á síðasta tímabili.

Aðrir tilnefndir voru Arnar Logi Sveinsson fyrir góðan árangur í knattspyrnu, Axel Örn Sæmundsson fyrir góðan árangur í badminton, Guðmundur Þorkelsson fyrir góðan árangur í hestaíþróttum, Ingvar Jónsson fyrir góðan árangur í golfi, Oddur Ólafsson fyrir góðan árangur í hestaíþróttum, Styrmir Dan Steinunnarson fyrir góðan árangur í frjálsum íþróttum, Sunna Ýr Sturludóttir fyrir góðan árangur í fimleikum og Þorsteinn Helgi Sigurðarson fyrir góðan árangur í akstursíþróttum.

Þá fengu körfuknattleiksmennirnir Emil Karel Einarsson og Halldór Garðar Hermannsson viðurkenningar fyrir að hafa keppt fyrir Íslands hönd með yngri landsliðum Íslands.

Íslandsmeistarar úr sveitarfélaginu voru einnig heiðraðir en það voru þau Eva Lind Elíasdóttir fyrir íslandmeistaratitla í frjálsum íþróttum 17 ára, Fannar Yngvi Rafnarson fyrir íslandsmet í frjálsum íþróttum 14 ára, Glódís Rún Sigurðardóttir fjórfaldur íslandsmeistari í hestaíþróttum í barnaflokki og Arnar Bjarki Sigurðsson fyrir íslandsmeistaratitil í fimmgangi.

Fyrri greinVilja skapa bjórmenningu
Næsta greinDómaranám með fjarkennslu