Ægir vann frábæran 0-2 sigur á Hetti á útivelli í botnbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag.
Fyrri hálfleikur var markalaus allt þar til á lokamínútunni að Moncho kom Ægismönnum yfir og staðan var 0-1 í hálfleik. Aron Ingi Davíðsson bætti öðru marki Ægis við um miðjan seinni hálfleikinn og þar við sat.
Fallbaráttan í 2. deildinni er mögnuð. Höttur er í 7. sæti með 19 stig en aðeins þrjú stig eru niður í Njarðvík sem er í 11. sæti. Þar á milli sitja Ægismenn með 17 stig en Sindri og Tindastóll eru líka í þessum sama pakka. Dalvík/Reynir er á botninum með 8 stig.
Næsti leikur Ægis er sex stiga leikur gegn Tindastóli á laugardaginn kl. 14:00.