Gríðarlega mikilvægur sigur

Karlalið Hamars vann góðan sigur á Breiðabliki í efri hluta 1. deildar karla í körfubolta. Liðin mættust í Hveragerði þar sem heimamenn sigruðu, 77-57.

Hamarsmenn mættu vel stemmdir til leiks og komust strax í 13-2. Staðan var 18-12 að loknum 1. leikhluta. Blikar minnkuðu muninn í þrjú stig í 2. leikhluta, 32-29, en Hamar skoraði síðustu tíu stig fyrri hálfleiks og leiddu í leikhléinu, 42-29.

Heimamenn héldu sínu striki í upphafi 3. leikhluta og juku forskotið enn frekar. Munurinn var 20 stig þegar mínúta var eftir af 3. leikhluta en Hamar skoraði þá sjö stig í röð og staðan var 66-39 þegar 3. leikhluta var lokið.

Eftir frábæran varnarleik í leiknum slökuðu Hvergerðingar aðeins á í 4. leikhluta og gestirnir minnkuðu muninn um sjö stig en þrátt fyrir það var öruggur Hamarssigur í höfn.

Öldungurinn í liðinu, Svavar Páll Pálsson, var besti maður Hamars í kvöld með 14 stig og 13 fráköst. Lárus Jónsson þjálfari var stigahæstur með 17 stig og Ragnar Nathanaelsson og Louis Kirkman skoruðu báðir 9 stig.

Eftir leikinn er Hamar í 3. sæti deildarinnar með 14 stig, eins og Breiðablik, en hefur betur í innbyrðis leikjum og á leik til góða á Blika.

Fyrri greinHörð botnbarátta framundan
Næsta greinGreiðfært yfir Hellisheiði