Gríðarlega mikilvægur sigur FSu

FSu vann góðan sigur á Þór Akureyri í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi, 103-101. Sigurinn var mikilvægur enda FSu í baráttu við Þór um sæti í úrslitakeppni deildarinnar.

Leikurinn var jafn framan af fyrri hálfleik en gestirnir náðu tólf stiga forskoti í 2. leikhluta. Staðan í hálfleik var 46-50.

FSu minnkaði muninn í 60-61 í 3. leikhluta en gestirnir bættu þá í og leiddu 73-77 þegar 4. leikhluti hófst. Þá kom góður sprettur hjá Selfyssingum sem náðu átta stiga forskoti 98-90, og töldu nú flestir björninn unninn.

Gestirnir voru ekki á sama máli og jöfnuðu leikinn 101-101 en síðustu stigin féllu FSu megin og unnu þeir dýrmætan sigur, 103-101.

Svavar Ingi Stefánsson átti frábæran leik fyrir FSu, skoraði 31 stig en næstur honum kom Matt Brunell með 28 stig og 10 fráköst. Ari Gylfason skoraði 15, Sigurður Hafþórsson 10, Arnþór Tryggvason 9, Daði Grétarsson 7 og Karl Ágúst Hannibalsson 3.

Með sigrinum er FSu nú aðeins tveimur stigum frá sæti í úrslitakeppninni en Þórsarar eru þar fyrir ofan. Þórsarar hafa þó betur í innbyrðis viðureignum liðanna eftir fjórtán stiga heimasigur fyrr í vetur.

Fyrri greinVilborg Arna saumar fyrsta sporið
Næsta greinSjálfstæðismenn telja á morgun