Selfoss er úr leik í EHF-bikarnum í handbolta þrátt fyrir 28-27 sigur gegn Azoty-Puławy frá Póllandi í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.
Azoty-Puławy sigraði með sjö marka mun í fyrri leiknum um síðustu helgi og það var ljóst að það yrði við ramman reip að draga hjá Selfyssingum í kvöld.
„Allt tryllt hérna á pöllunum“
„Þetta var svekkjandi niðurstaða en við spiluðum vel á löngum köflum og það er frábært að spila hérna á heimavelli. Það var allt tryllt hérna á pöllunum í upphafi seinni hálfleiks þegar við áttum mjög góðan kafla. Eftir það kemur aðeins agaleysi yfir okkur í sókninni. Þeir spiluðu líka góða vörn og við vorum dálítið að kasta boltanum frá okkur,“ sagði Elvar Örn Jónsson, besti leikmaður Selfoss í leiknum, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Þetta er aðeins annað en íslenski boltinn. Þeir eru stórir og sterkir og það er erfitt að eiga við þá. Maður heldur að maður sé með þá en þá kemur skriðþunginn og þeir komast í gegn. Það eru líka gæði í þeim. Þeir eru stórir, þungir og snöggir og með góð skot. Við erum ekki vanir að spila á móti svona leikmönnum,“ sagði Elvar ennfremur og bætti við að þessi keppni hafi veirð frábær reynsla fyrir Selfoss.
„Við fórum með þetta í fyrri leiknum og misstum þá of langt frá okkur. Við ætluðum að vinna með átta mörkum í kvöld en það tókst ekki. Við unnum samt leikinn og getum verið ánægðir með það. Við ætluðum ekki að ekki að tapa á heimavelli fyrir framan fullt hús af fólki. Þetta er gríðarleg reynsla fyrir okkur, sérstaklega leikirnir á útivelli.“
Góður kafli í upphafi seinni hálfleiks
Fyrri hálfleikur var jafn en Selfyssingar voru ekki að sýna sínar bestu hliðar í sókninni. Pólverjarnir náðu tveggja marka forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn en Selfoss jafnaði fyrir hálfleik, 13-13.
Frábær byrjun Selfyssinga í seinni hálfleik skilaði þeim fjögurra marka forskoti og liðið fékk möguleika á því að auka muninn enn frekar en vörn Azoty-Puławy var erfitt við að eiga. Gestirnir voru fljótir að minnka muninn aftur en Selfyssingar ætluðu sér sigur, þrátt fyrir að vera á leið út úr keppninni, og kláruðu leikinn af krafti.
Elvar markahæstur með 10 mörk
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga í kvöld með 10 mörk, en skotnýtingin hjá honum hefur oft verið betri, var aðeins 58% í kvöld. Elvar lagði líka sitt af mörkum í vörninni og sendi að auki fimm stoðsendingar.
Árni Steinn Steinþórsson skoraði 8/3 mörk, Einar Sverrisson 4, Atli Ævar Ingólfsson 3, Hergeir Grímsson 2 og Alexander Egan 1. Sverrir Pálsson komst ekki á blað í sókninni en var sterkur í vörninni með 9 brotin fríköst.
Haukur Þrastarson sat hins vegar meiddur á bekknum í kvöld og munaði um minna, en hann fékk högg á lærið í deildarleiknum gegn Fram í vikunni og er óvíst hvenær hann verður klár á nýjan leik.