Selfoss vann góðan sigur á Þór/KA í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu á Selfossi í dag. Þór/KA komst yfir í fyrri hálfleik en Selfoss skoraði tvö í seinni hálfleik og sigraði 2-1.
„Þetta er okkar heimavöllur og við eigum að taka öll stig sem eru í boði hér. Það var gríðarlega mikilvægt að landa þessum sigri í dag. Þetta var þolinmæðisvinna enda er Þór/ KA hörkulið og fastar fyrir. Þannig að þetta var bara flott hjá okkur og örugglega skemmtilegur leikur að horfa á,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, eftir leik.
Selfoss stýrði leiknum í fyrri hálfleik en náði ekki að skapa sér færi. Það voru hins vegar gestirnir sem komust yfir á 21. mínútu, þvert gegn gangi leiksins. Margrét Árnadóttir átti þá frábæra sendingu í gegnum Selfossvörnina á Maríu Ólafsdóttur Gros sem skoraði af öryggi.
Dagný Brynjarsdóttir hefði getað jafnað fyrir Selfoss á 27. mínútu þegar Selfoss fékk víti, eftir að brotið var á Helenu Heklu Hlynsdóttur í vítateignum. Harpa Jóhannsdóttir, markvörður Þórs/KA, varði spyrnuna hins vegar vel.
Annars var fyrri hálfleikur tíðindalítill og staðan var 0-1 í hálfleik. Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og náði að afgreiða leikinn á fyrstu tólf mínútum síðari hálfleiks. Á 53. mínútu átti Barbára Sól Gísladóttir góða sendingu inn á vítateig þar sem Magdalena Reimus kom á ferðinni á fjærstönginni og skallaði boltann í netið. Fjórum mínútum síðar sendi Barbára boltann aftur inn á teig, þar sem Dagný tók hann á kassann og lagði fyrir Tiffany McCarty sem skoraði af stuttu færi.
Eftir þetta héldu Selfyssingar áfram góðum tökum á leiknum og Þór/KA ógnaði marki þeirra vínrauðu lítið.
Selfoss er nú í 3. sæti deildarinnar með 10 stig en Þór/KA er í 5. sæti með 6 stig.