Gríðarlegar sveiflur á lokakaflanum

Emil Karel Einarsson skoraði 17 stig og tók 4 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tapaði 82-88 þegar Tindastóll kom í heimsókn í Höfnina í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.

Leikurinn var sveiflukenndur í fyrri hálfleik, Tindastóll byrjaði betur en Þór átti góðan kafla í 2. leikhluta og staðan í leikhléi var 40-38. Þriðji leikhlutinn var jafn og Þórsarar héldu forskotinu en staðan var 63-58 þegar tíu mínútur voru eftir.

Tindastóll virtist ætla að klára leikinn í upphafi fjórða leikhluta þar sem Þór skoraði aðeins tvö stig á rúmum átta mínútum á meðan Tindastóll raðaði niður 25 stigum og breytti stöðunni í 65-83. Þór svaraði með ótrúlegu 14-0 áhlaupi og staðan var orðin 79-83 þegar rúm hálf mínúta var eftir. Gestinir kláruðu leikinn hins vegar örugglega á vítalínunni og sigruðu að lokum 82-88.

Þór er í 9. sæti deildarinnar með 14 stig þegar tvær umferðir eru eftir, tveimur stigum á eftir Grindavík, sem er í 8. sætinu – því síðasta sem gefur farmiða í úrslitakeppnina.

Þór Þorlákshöfn: Jerome Frink 26/7 fráköst, Emil Karel Einarsson 17/4 fráköst, Marko Bakovic 12/12 fráköst/5 varin skot, Halldór Garðar Hermannsson 10/12 stoðsendingar, Dino Butorac 8/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 5, Styrmir Snær Þrastarson 4, Sebastian Eneo Mignani 0.

Fyrri greinGekk berserksgang eftir að hafa losnað úr gæsluvarðhaldi
Næsta greinBarbára skoraði í sigri Íslands