Selfyssingar hafa ráðið Grím Hergeirsson þjálfara meistaraflokks karla í handbolta til næstu tveggja ára.
Grímur er Selfyssingur í húð og hár og hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins undanfarin fjögur ár. Hann tekur við sem aðalþjálfari af Patreki Jóhannessyni sem vann það afrek að gera Selfyssinga að Íslandsmeisturum í vor. Patrekur heldur nú til starfa hjá Skjern í Danmörku.
Í tilkynningu frá stjórn deildarinnar kemur fram að þar á bæ séu menn gríðarlega ánægðir með að Grímur hafi ákveðið að taka slaginn með liðið og bindur stjórnin miklar vonir við gengi liðsins í komandi átökum næsta vetur, bæði hér heima og í Evrópu.