Sameiginlegt lið Grindavíkur og Þórs Þorlákshöfn varð bikarmeistari í 11. flokki drengja í körfubolta í dag. Grindavík/Þór lagði Breiðablik í úrslitaleik, 96-85.
Grindavík/Þór tók frumkvæðið strax í 1. leikhluta þar sem Halldór Hermannsson fór fyrir sínum mönnum en hann skoraði grimmt í upphafi og mataði félaga sína. Staðan var 26-19 að loknum 1. leikhluta en Breiðablk jafnaði 31-31 um miðjan 2. leikhluta. Grindavík/Þór óx hinsvegar ásmegin undir lok fyrri hálfleiks og leiddu í leikhléinu, 45-41.
Grindavík/Þór skoraði fyrstu sjö stigin í seinni hálfleik og var þá forystan orðin 11 stig, 52-41. Leikurinn var í járnum eftir það og skiptust liðin á góðum áhlaupum en munurinn var ennþá ellefu stig þegar 4. leikhluti hófst, 75-64.
Síðasti fjórðungurinn var hraður og skemmtilegur en Blikar náðu á tímabili að minnka muninn í sex stig. Grindavík/Þór var hins vegar ákveðnara liðið á lokakaflanum og unnu strákarnir að lokum verðskuldaðan sigur.
Halldór Garðar Hermannsson og Hilmir Kristjánsson voru stigahæstir hjá Grindavík/Þór með 31 stig. Jón Jökull Þráinsson og Ingvi Þór Guðmundsson skoruðu báðir 13 stig, Aðalsteinn Pétursson 4 og þeir Kristófer Breki Gylfason og Hlynur Ægir Guðmundsson skoruðu báðir 2 stig.